Ferill 334. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 416  —  334. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 55/1998, um meðferð, vinnslu og dreifingu sjávarafurða.

(Lagt fyrir Alþingi á 123. löggjafarþingi 1998–99.)

1. gr.

    Í stað orðanna „Þar til IV. og V. kafli laga þessara taka gildi“ í ákvæði til bráðabirgða með lögunum kemur: Til og með 31. desember 1999.


2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Með 1. gr. laga nr. 89/1997, um breytingu á lögum nr. 93/1992, um meðferð sjávarafurða og eftirlit með framleiðslu þeirra, var felld úr gildi 2. mgr. 6. gr. laga nr. 93/1992 þar sem kveðið var á um leyfisveitingu sjávarútvegsráðherra til innflutnings lifandi fiska, skrápdýra, liðdýra eða lindýra sem lifa í söltu vatni. Í athugasemdum með frumvarpinu kom fram að ákvæðum 2. mgr. 6. gr. um innflutning væri ofaukið þar sem samkvæmt frumvarpinu skyldi fjallað um innflutning í IV. og V. kafla laganna. Lög nr. 93/1992 voru leyst af hólmi með lögum nr. 55/1998, um meðferð, vinnslu og dreifingu sjávarafurða. Þau ákvæði laga nr. 89/1997 sem breytt höfðu lögum nr. 93/1992 voru tekin að mestu óbreytt inn í lög nr. 55/1998. Í samræmi við það var lögfest bráðabirgðaákvæði þar sem gildistaka niðurfellingar á leyfis­veitingu sjávarútvegsráðherra var bundin gildistöku IV. og V. kafla laganna sem er að mestu samhljóða IV. og V. kafla laga nr. 93/1992.
    Tilskipun 90/425 EBE fjallar um eftirlit með heilbrigði lifandi dýra og dýraafurða frá ríkjum Evrópska efnahagssvæðisins. Tilskipun 91/496 EBE fjallar um eftirlit með heilbrigði lifandi dýra og dýraafurða frá þriðju ríkjum. Samkvæmt ákvörðun sameiginlegu EES-nefnd­arinnar 17. júlí 1998 um breytingu á viðauka I við EES-samninginn tekur Ísland þessar gerðir aðeins yfir að hluta. Í ákvörðuninni er að finna ákvæði þar sem segir að innflutningur lifandi dýra til og frá Íslandi skuli ekki heimilaður nema þegar um er að ræða tilteknar tegundir, þ.e. humar, lúðuseiði, barrahrogn og hrogn og svil Atlantshafslax, regnbogasilungs og bleikju. Samkvæmt ákvörðuninni átti að endurskoða þetta ákvæði fyrir 1. júlí 1998. ESB hefur nú farið óformlega fram á að ákvæðið verði endurskoðað. Ekkert liggur enn fyrir um að af endurskoðun verði og því er óljóst hvort eða hvernig framangreindu ákvæði verður breytt.
    Þegar bráðabirgðaákvæði laga nr. 55/1998 fellur úr gildi verður IV. og V. kafla laganna beitt við innflutning þeirra lifandi dýra sem undir bráðabirgðaákvæðið falla. Í því felst að þessi dýr verða flutt inn til landsins frá öðrum ríkjum án þess að sækja þurfi um leyfi fyrir innflutningnum. Þegar dýrin koma frá öðrum ríkjum innan Evrópska efnahagssvæðisins verð­ur aðeins um skyndiskoðanir að ræða og ekki unnt að stöðva innflutninginn nema öryggisákvæði 24. gr. laganna eigi við. Telja verður að IV. og V. kafli laga nr. 55/1998 tryggi ekki nægilegt eftirlit með innflutningi lifandi dýra sem nú falla undir bráðabirgðaákvæði laga nr. 55/1998, annarra en tegunda sem reglur Evrópska efnhagssvæðisins ná til samkvæmt ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar. Embætti yfirdýralæknis hefur lýst yfir áhyggjum vegna þessa. Þykir því rétt að framlengja gildistíma bráðabirgðaákvæðis laga nr. 55/1998 um eitt ár. Með því er tryggt að áfram verði unnt að viðhafa fullnægjandi eftirlit með innflutningi á þeim tegundum sem falla undir bráðabirgðaákvæði laga nr. 55/1998. Þá ætti að skýrast á gildistímanum hvort af að endurskoðun framangreinds ákvæðis viðaukans verður.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 55/1998,
um meðferð, vinnslu og dreifingu sjávarafurða.

    Með frumvarpinu er lagt til að framlengt verði ákvæði til bráðabirgða, um að leitað skuli leyfis sjávarútvegsráðherra til innflutnings á lifandi sjávardýrum. Ekki verður séð að frum­varpið hafi áhrif á útgjöld ríkissjóðs, verði það að lögum.